Útvarp Akranes 2020 var á dagskrá síðast liðna helgi
Útvarp Akranes 2020 var á dagskrá síðast liðna helgi og gekk útvarpið vonum framar. Covid-19 setti strik í reikninginn í litla útvarpinu okkar og því voru nokkrir þættir teknir upp fyrirfram og einnig einstaka viðtöl.
Innreið jólanna hefst hjá fjölmörgum Skagamönnum þessa helgina, bakaðar eru smákökur, laufabrauð steikt, jólahreingerningar hefjast undir ljúfum tónum og skemmtilegum viðtölum Útvarpsins. Útvarp Akranes er því einskonar skilyrt áreiti jólanna fyrir marga.
Í 33 ár hefur Sundfélag Akraness séð um Útvarp Akraness sem allaf er sett í loftið fyrstu helgina í aðventu. Útvarpið er ein af helstu fjáröflunum félagsins. Við þökkum öllum þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem sendu inn auglýsingar þannig tekið þátt í að styrkja innviði Sundfélagsins. Alls voru 85 fyrirtæki sem auglýstu hjá okkur. Einnig þökkum við Símenntunarmiðstöð Vesturlands fyrir lánið á húsnæðinu en vel hefur farið um okkur hér við Akratorg.
19 þættir voru sendir í loftið þessa helgina og með þeim 33 þáttastjórnendur auk krakkanna í grunnskólunum hér á Akranesi en við þökkum öllu þessu fólki þeirra framlag. Eins og áður segir óvenju fáir gestir vegna Covid-19. Að halda úti Útvarpi eins og þessu er ógjörningur án okkar frábæru tæknimanna sem jafnframt eru þáttagerðarmenn með meiru. Óli Palli og Óli Valur snillingar og sérfræðingar – takk fyrir ykkar frábæru þjónustu, – ENN EITT ÁRIÐ! Án ykkar væri útvarp Akranes ekki til.
Sundfélag Akraness þakkar fyrir góða hlustun í ár og við hlökkum til að útvarpa til ykkar að ári.