Aðalfundur Sundfélags Akraness var haldinn að Jaðarsbökkum fimmtudaginn 4. mars 2021

Fram fóru venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins en fundinum stýrði Hrönn Ríkharðsdóttir. Fundurinn hófst á ávarpi formanns félagsins, Ágústs Júlíussonar, sem flutti skýrslu stjórnar fyrir árið 2020. Þrátt fyrir óvenjulegt ár sökum Covid-19 faraldursins getur sundfélagið fagnað auknum fjölda iðkenda og góðum árangri. Farið var yfir viðurkenningar og verðlaun sem iðkendur hafa hlotið fyrir afrek og ástundun á liðnu ári.

Ársreikningur félagsins var lagður fram af gjaldkera, Daníel Sigurðsyni, sem samþykktur var einróma. Tekjuafgangur á milli ára voru tæplega fjórar milljónir króna en hluti þeirrar upphæðar eru námskeiðsgjöld fyrir námskeið sem þurfti að fresta vegna Covid-19 og verða haldin á þessu ári. Eigið fé félagsins er um 10 milljónir króna sem staðfestir trausta stöðu þess.

Stjórn félagsins tók ekki breytingum á þessum aðalfundi og sitja því áfram í stjórn: Ágúst Júlíusson formaður, Guðrún Guðbjarnadóttir varaformaður, Þórdís Guðmundsdóttir ritari, Daníel Sigurðsson gjaldkeri ásamt Ruth Jörgensdóttur Rautenberg, Nínu Björk Gísladóttur og Emiliu Orlita meðstjórnendum.

Björn Sigurðsson formaður Sundsambands Íslands ávarpaði fundinn og hrósaði Sundfélagi Akraness fyrir gott starf við erfiðar aðstæður á árinu 2020. Aðstaða til sundiðkunar á Akranesi var einnig umtalsefni hjá Birni sem lýsti væntingum um að að úr henni yrði bætt á allra næstu árum.

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness ávarpaði einnig fundinn og gerði sjálfboðaliða íþróttafélaga að umtalsefni sem hann taldi eiga mikið hrós skilið fyrir vinnu sína og skipta íþróttafélögin miklu máli. Sævar Freyr ræddi einnig átak við uppbygginigu íþróttamannvirkja á Akranesi og gaf félaginu vonir um að innan nokkurra ára verði hafist hand við byggingu nýrrar sundlaugar.