Að loknum Akranesleikum
Þá er Akranesleikum lokið og annað árið sem þeir eru haldnir við óvenjulegar aðstæður sökum covid.
Þrátt fyrir það þá er gaman að segja frá því að þetta voru fjölmennustu leikarnir hingað til með yfir 380 sundmenn og 1706 stungur. Með þessum fjölda þurfti aðeins að breyta mótinu til að það gangi upp tímanlega.En með góðri hjálp frá öllum félögum tókst það mjög vel að okkar mati.
Myndasyrpu frá mótinu er að finna á www.iasund.is undir Akranesleikar 2021
Til að halda svona mót og til að allt gangi upp þarf að hjálpast að og við höfum svo sannarlega séð hversu öflugt fólk Sundfélag Akranes er með í kring um sig.
Foreldrar, sundmenn og venslamenn skiptust á að standa vaktina alla helgina, hvort sem það var dómgæsla, riðlastjórn, kaffisala, skólagæsla, uppvask eða annað.
Það er mikið verk að setja upp svona sundmót og mörg verk á bakkanum sem þarf að vinna. Þar nutum við góðs af sundmönnunum okkar sem unnu með okkur á fimmtudagskvöldið við að setja upp öll tól og tæki sem þurfti ásamt foreldrum og traustu fólki sem við höfum haft okkur til halds og trausts.
Á svona sundmóti þarf her manns til að starfa en dómarateymið í hverjum hluta telur um 18 manns. Við erum heppin með að það ríkir góður andi á Akranesleikum og fáum við oftar en ekki fólk alls staðar að til að koma og vera með okkur og foreldrar í félaginu okkar ásamt foreldrum fyrrum sundmanna og fyrrum sundmenn SA eru algjörlega ómissandi við laugina. Þeir telja ekki eftir sér að koma og dæma eða annast tímavörslu.
Síðast en alls ekki síst er það starfsfólk Jaðarsbakkasundlaugar sem við treystum á, það hefur verið okkur mjög hjálplegt og oft er best að leita til þess með lausnir á vandasömum málum. Þetta fólk á mikinn þátt í því að helgin gekk svona vel og þökkum við þeim fyrir það.
Vonum að enginn sé að gleymast en ekki er hægt að ljúka þessum pistli án þess að segja hversu stolt við erum af öllum sundmönnunum okkar sem kepptu um helgina eða voru með okkur. Þeir stóðu sig frábærlega vel og voru okkur svo sannarlega til sóma og margir að synda sitt fyrsta alvöru sundmót.
Þökk fyrir helgina,
stjórn og þjálfarar SA