Frábær árangur hjá sundfólki Sundfélags Akraness á Íslandsmeistaramótinu í 50m laug.

Frábær árangur hjá sundfólki Sundfélags Akraness á Íslandsmeistaramótinu í 50m laug.


Tvö silfur, tvö brons, þrjú landsliðslágmörk og fjögur Akranesmet.

Um helgina fór fram Íslandsmeistaramót í 50m laug þar sem flestir af bestu sundmönnum landsins tóku þátt. ÍM 50 er jafnframt mikilvægasta mót ársins á Íslandi og mótið þar sem flestir stefna á að ná sínum besta árangri. Mótið var haldið í 50m innilauginni í Laugardalnum.

Einar Margeir Ágústsson vann silfur í 50m bringusundi á tímanum 29,17 sek. sem er bæði Akranesmet og undir lágmarki á EM unglinga sem fer fram í Rúmeníu í sumar. Þessi tími er næst besti tími sem hefur verið syntur á Íslandi í piltaflokki. Einungis sigurvegari greinarinnar, Snorri frá SH, hefur synt þessa grein hraðar en Snorri synti á 29,08 sek.
29,17 sek. er líka bæting á Akranesmetinu sem Einar átti sjálfur og var 29,92 sek. frá því í janúar á þessu ári.

Í 200m bringusundi vann Einar silfur á tímanum 2.26,21 mín. sem er nýtt Akranesmet. Gamla metið var 2.28,33 mín sem Hrafn Traustason setti árið 2008.
Einar varð fjórði í 100m bringusundi þar sem hann synti við sinn besta tíma.

Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir vann brons í 100m skriðsundi á tímanum 59,55 sek. 
Í 50m skriðsundi synti hún á 27,55 sek. og endaði í 5. sæti. Báðir þessir tímar eru undir lágmörkum hjá unglingalandsliði SSÍ. 

Bjartey varð fjórða í 200m skriðsundi á tímanum 2.12,42 mín. sem er bæting um 3,5 sek.
Í 50m flugsund varð hún í 5. sæti á tímanum 30.41.


Kristján Magnússon vann silfur í 200m skriðsundi á tímanum 2.02,79 mín. eftir mjög gott sund. Hann var í sjötta sæti eftir 150m en átti mest inni fyrir lokasprettinn síðustu 50 metrana og synti sig upp í annað sætið. Vel útfært sund.
Í 50m skriðsundi var Kristján í 3. sæti á tímanum 24,71 sek. sem var undir lágmarki í unglingalandslið og setti um leið nýtt Akranesmet í piltaflokki. Gamla metið átti Einar Margeir, 25,36 sek.

Í 50m baksund varð hann nr. 4 á timanum 30.22

Guðbjarni Sigþórsson átti góða helgi og bæti sig í fjórum af fimm greinum.
Hann varð í 8. sæti í bæði 100m flugsundi á 1.06,37 mín. og 200m skriðsundi á 2.06,49 mín.

Ragnheiður Karen Ólafsdóttir synti vel yfir helgina og var við sína bestu tíma sem er mjög góður árangur miðað við að hún hefur strítt við meiðsli síðasta mánuðinn.

Ingibjörg Svava Magnúsardóttir bæti sig í 50m baksundi, og var mjög nálægt sínum bestu tímum í öllum sundum.

Helga Rós Ingimarsdóttir sem synti í boðsundi bætti sig um næstum því sekúndu í 100m baksundi sem er góður árangur á fyrsta Íslandsmeistaramótinu
.
Veikindi settu strik í reikninginn fyrir sundmenn frá Akranesi en nokkrir hafa legið mikið veikir með flensu; Sindri Andreas Bjarnason synti 100m skriðsund og var aðeins frá sínum besta tíma. Sindri þurfti síðan að draga sig úr keppni vegna veikinda. Alex Benjamín Bjarnason synti við sinn besta tíma í 50m skriðsundi en þurfti líka að draga sig úr keppni vegna veikinda.  Enrique Snær Llorens náði sér ekki á strik eftir flensuna og þurfti því miður að draga sig úr mótinu og sama gildir um Karen Karadóttur sem gat ekki keppt vegna veikinda.
Veikindin ollu því einnig að SA þurfti að draga sig úr keppni í flestum boðsundum helgarinnar.


Í 4x100m skriðsundi varð strákasveitin okkar í 4. sæti á tímanum 3.44,98 mín. sem er nýtt Akranesmet. Sveitina skipuðu þeir Einar Margeir, Sindri Andreas, Guðbjarni og Kristján. Gamla metið var 3.45,86 mín. frá árinu 2011 og það áttu þeir Ágúst Júlíusson, Jón Þór Hallgrímsson, Birgir Viktor Hannesson og Guðmundur Brynjar Júlíusson.

Stelpurnar urðu í 6. sæti í 4×100 fjórsundi. Þar syntu Helga Rós, Ragnheiður Karen, Guðbjörg Bjartey og Ingibjörg Svava.