Aðalfundur Sundfélags Akraness fór fram í gær, 9. mars.

Aðalfundur Sundfélags Akraness fór fram í gær, 9. mars.

Hrönn Ríkharðsdóttir stýrði fundinum en fram fóru venjuleg aðalfundastörf samkvæmt lögum félagsins. Formaður félagsins, Ágúst Júlíusson flutti skýrslu stjórnar fyrir árið 2022 en þar kom m.a. fram að eftir heimsfaraldur væri starf Sundfélags Akraness komið nokkuð vel í fastar skorður þegar æfingar og mót eru skoðuð. Einnig koma fram að árangur iðkenda félagsins væri einstaklega góður og farið var yfir viðurkenningar og verðlaun sem iðkendur hafa hlotið fyrir afrek og ástundun á árinu 2022.

Maríanna Pálsdóttir gjaldkeri lagði fram ársreikning félagsisn sem samþykktur var samhljóma af fundargestum. Eigið fé félagsins um 10 milljónir sem staðfestir trausta stöðu þess en örlítill halli var á rekstrinum eða rétt rúmlega 20 þúsund.

Stjórn Sundfélags Akraness tók breytingum á fundinum. Ágúst Júlíusson vék sem formaður og í hans stað var Valdimar Ingi Brynjarsson kosinn formaður. Ágúst mun sitja áfram í stjórn og tekur hann sæti Ruthar Jörgensdóttur Rautenberg sem víkur úr stjórn eftir farsælt starf. Stjórn félagsins þakkar Ruth fyrir vel unnin störf í þágu félagsins undanfarin ár. Í september 2022 vék Daníel Sigurðsson gjaldkeri félagsins úr stjórn og við tók Maríanna Pálsdóttir. Stjórnina skipa eftir breytingar: Valdimar Ingi Brynjarsson formaður, Guðrún Guðbjarnadóttir varaformaður, Þórdís Guðmundsdóttir ritari, Maríanna Pálsdóttir gjaldkeri, ásamt Ágústi Júlíussyni, Nínu Björk Gísladóttur og Emiliu Orlita meðstjórnendum.

Leifur Guðni Grétarsson stjórnarmaður í Sundsambandi Íslands ávarpaði fundinn og hrósaði félaginu fyrir gott starf. Hann lýsti mikilli ánægju með að félagið ætti fjóra iðkendur sem hefðu tekið þátt í landsliðverkefnum á árinu 2022 og fleiri sem væru rétt við lágmörk landsliðsins. Einnig talaði Leifur Guðni um aðstöðumun sundfélaga á Íslandi en athygli hefur vakið að Sundfélag Akraness er eina félagið á landinu sem á iðkendur í landsliðshópi en æfir í 25 metra útilaug. Önnur félög sem eiga sundfólk í fremstu röð á Íslandi æfa í 50 metra innilaug.

Að fundi loknum var fundargestum boðið upp á kökuhlaðborð sem hefð er fyrir á slíkum fundum hjá Sundfélagi Akraness.