Tuttugu og fjórir Íslandsmeistaratitlar og þriðja sætið í stigakeppninni á Opna Íslandsmeistaramótinu í garpasundi!

Opna Íslandsmeistaramótið í garpasundi fór fram dagana 5.-6. maí sl. í Sundlaug Kópavogs.

Vel á annað hundrað keppendur 25 ára og eldri skráðu sig til leiks frá 11 félögum.

Sundfélag Akraness sendi 9 manna sveit á mótið að þessu sinni og er það talsverð fjölgun frá því í fyrra þegar 5 sundmenn tóku þátt. Það er skemmst frá því að segja að árangur liðsins var sérlega glæsilegur en liðið hlaut samtals 24 gullverðlaun, 9 silfurverðlaun og 5 bronsverðlaun!

Hlutskörpust í ÍA sveitinni voru þau Guðmundur Brynjar Júlíusson (8 gullverðlaun), Kári Geirlaugsson (5 gullverðlaun), Kristín Minney Pétursdóttir (4 gullverðlaun og 4 silfurverðlaun) og Guðgeir Guðmundsson (3 gullverðlaun og 1 silfurverðlaun).
Aðrir sem unnu til verðlauna voru þau Valdimar Ingi Brynjarsson, Birna Björnsdóttir, Anna Leif Auðar Elídóttir, Silvia Llorenz og Arnheiður Hjörleifsdóttir.

Boðsundssveitir ÍA unnu samtals til einna gullverðlauna (kvennasveitin í 4*50 metra fjórsundi) og þrennra silfurverðlauna. Þessi árangur skilaði ÍA þriðja sætinu í stigakeppninni, en sigurvegarar að þessu sinni var heimaliðið Breiðablik með 45 keppendur og í öðru sæti var Sundfélag Hafnarfjarðar með 39 keppendur.

Það er einstakur andi á mótum eins og þessum og má segja að um sé að ræða eina stóra sundfjölskyldu. Eldri sundmenn hittast og rifja upp gamla tíma, nýir sundmenn mæta og yfirstíga alls kyns áskoranir og aðstandendur og aðrir hjálpa til við það sem þarf að gera til að hægt sé að halda sundmót svo sem eins og dómgæslu, tæknimál, kaffisölu, verðlaunaafhendingu og fleira.

Hápunktur mótsins er svo lokahófið sem var sérlega glæsilegt að þessu sinni. Sundfélag Akraness hefur haldið úti reglulegum garpaæfingum núna samfelld í ein þrjú ár og von er á framhaldi næsta haust. Reglulega eru haldin skriðsundsnámskeið og þaðan liggur leiðin oftar en ekki í garpahópinn. ÍA garparnir hafa m.a. farið í sundæfingabúiðir til Tenerife, keppt á Norðurlandameistarmóti í Færeyjum og á Evrópumeistaramóti í Róm. Það er því óhætt að segja að félagslífið í sundinu sé líflegt og vill Sundfélagið hvetja alla áhugasama til að taka þátt í þessu starfi enda sund holl, alhliða hreyfing sem hægt er að stunda alla ævi!