Gamlársmót Gústa í Jaðarsbakkalaug

30. desember, var haldið „Gamlársmót Gústa 2023“ í Jaðarsbakkalaug. Ágúst Júlíusson fyrrum afreksmaður í sundi er helsti hvatamaður mótsins og því ber mótið nafn hans.

Mikil eftirvænting var fyrir mótinu þar sem löng hefð ríkir fyrir viðburðinum. Mótið var með svipuðu sniði og fyrri ár þar sem stuttar greinar voru eingöngu í boði og áhersla lögð á að allir gætu tekið þátt. Sérstaða mótsins er líklega sú að sundreglur skipta litlu máli og dómarar og tímaverðir eru sagðir frekar utangátta þegar kemur að öllum formsatriðum sundíþróttarinnar.

Alls stungu 35 þátttakendur sér til sunds og beittu ýmsum brögðum til að koma sem fyrst í bakkann. Fjölmargir óskuðu eftir að taka einungis þátt í kökuhlaðborðinu sem tók við að móti loknu ásamt happadrættinu en þar voru glæsilegir vinningar í boði dyggra stuðningsaðila Sundfélagsins.