Aðalfundur Sundfélags Akraness fór fram 7. mars sl.

Aðalfundur Sundfélags Akraness fór fram 7. mars sl.

Anna Leif Elídóttir stýrði fundinum en samkvæmt lögum félagsins fóru fram venjuleg aðalfundarstörf. Formaður félagsins, Valdimar Ingi Brynjarsson flutti skýrslu stjórnar fyrir árið 2023 þar sem m.a. var farið yfir gott gengi sundfólksins okkar, mótin sem sótt voru, æfingabúðir og margt fleira. Iðkendur félagsins voru færri á árinu 2023 en árið á undan sem skýrist af því að erfiðlega gekk að fá þjálfara fyrir ungbarnasund og fóru því færri námskeið fram um haustið. Einar Margeir Ágústsson sundmaður ársins 2023 var valinn íþróttamaður Akraness fyrir árið 2023 og er félagið afar stolt af þessum öfluga sundmanni.

Gjaldkeri félagsins, Maríanna Pálsdóttir, lagði fram ársreikning félagsins sem samþykktur var samhljóma af fundargestum. Niðurstaða rekstrarársins 2023 var jákvæð um 3 milljónir króna sem staðfestir traustan rekstur og utanumhald.

Stjórn Sundfélags Akraness tók breytingum á fundinum. Nína Björk Gísladóttir steig til hliðar og í hennar stað tekur Guðmundur Júlíusson sæti í stjórn. Stjórnina skipa eftir breytingar: Valdimar Ingi Brynjarsson formaður, Guðrún Guðbjarnadóttir varaformaður, Þórdís Guðmundsdóttir ritari, Maríanna Pálsdóttir gjaldkeri, ásamt Ágústi Júlíussyni, Emiliu Orlita og Guðmundi Júlíussyni meðstjórnendum.

Björn Sigurðsson formaður Sundsambands Íslands ávarpaði fundinn og kom fram í máli hans að Sundfélag Akraness væri til fyrirmyndar að allri umgjörð og innra starfi. Einnig kom fram í máli Björns að hann fyrir hönd Sundsambands Íslands vonar að stutt verði þangað til að framkvæmdir hefjist á vegum Akraneskaupstaðar við nýja og stórbætta sundaðstöðu á Akranesi.

Á fundinum var fundargestum boðið upp á kökuhlaðborð sem hefð er fyrir á aðalfundum Sundfélags Akraness.