Opna Íslandsmeistaramótið í garpasundi fór fram dagana 4.-5. maí Ásvallalaug, Hafnarfirði.

155 keppendur  25 ára og eldri skráðu sig til leiks frá 12 félögum.

Sundfélag Akraness sendi 9 manna sveit á mótið að þessu sinni.
Það er skemmst frá því að segja að árangur liðsins var sérlega glæsilegur en liðið hlaut samtals 16 gullverðlaun, 12 silfurverðlaun og 3 bronsverðlaun!

Kari Geirlaugsson var í fanta formi og vann til sjö gullverðlauna og setti sjö Garpamet í flokki 75-79 ára.

Hallbera Jóhannesdóttir stakk sér til sunds á sínu fyrsta meistramóti í langa tíma, hún vann hvorki meira né minna en sex gullverðlaun og setti fimm garpamet í flokki 65-69 ára.

Verðlaunin voru mörg og  vann Guðgeir Guðmundson eitt gull og þrjú silfur, Alexander Eck fékk brons, Arnheiður Hjörleifsdóttir tvö silfur og eitt brons, Guðmundur Brynjar Juliusson tvö silfur, Kristjana þorvaldsdóttir eitt gull og fjögur silfur.

Í boðsundum unnu stelpurnar,  Kristjana, Hallbera, Arnheiður og Silvia gull í 4x50m skriðsundi og 4×50 fjórsundi.

Í blönduðu boðsundi unnu þau  Kári, Alexander, Kristjana og Silvia brons í 4×50 fjórsundi.

Og strákarnir Alexander, Guðgeir, Valdimar Ingi og Guðmundur unnu silfur í 4×50 skriðsundi.

Mótið var endað á  lokahófi sem er mjög mikilvægur partur af garpamóti og fyrir marga hápunkturinn yfir helgina.


Það er einstakur andi á mótum eins og þessum og má segja að um sé að ræða eina stóra sundfjölskyldu. Eldri sundmenn hittast og rifja upp gamla tíma, nýir sundmenn mæta og yfirstíga alls kyns áskoranir og aðstandendur og aðrir hjálpa til við það sem þarf að gera til að hægt sé að halda sundmót svo sem eins og dómgæslu, tæknimál, kaffisölu, verðlaunaafhendingu og fleira.

Sundfélag Akraness hefur haldið úti reglulegum garpaæfingum yfir veturinn, og hefst á ný í ágúst.
Sundfélagið vill hvetja alla áhugasama til að taka þátt í þessu starfi enda sundið holl, alhliða hreyfing sem hægt er að stunda alla ævi!