Karen Anna Orlita fór til Færeyja með Framtíðarhópur SSÍ

Frá 5. til 8. september fór Framtíðarhópur SSÍ í ferð til Færeyja. Markmiðið var að styrkja tengslin milli Íslands og Færeyja og skapa frábært verkefni fyrir besta aldursflokkasundfólk landsins.

Föstudagurinn hófst með sameiginlegri æfingu, þar sem sundfólkið frá báðum þjóðum sameinaðist undir leiðsögn okkar frábæru þjálfara. Að æfingu lokinni borðaði hópurinn saman í sundlauginni.

Laugardagurinn var sérstaklega skemmtilegur, með sundmóti sem var stigakeppni á milli þjóðanna. Ísland sigraði með 564 stigum gegn 267 stigum Færeyja! 🥇🏊‍♂️

Sigurvegarinn varðveitir bangsann Jónas Í Jákopsstovu næsta árið, eða þangað til þjóðirnar hittast aftur í september á Íslandi. Um kvöldið var haldin kvöldvaka með mat og leikjum, þar sem sundfólkið bjó til Kahoot spurningakeppnir um löndin okkar, og Rúni, landsliðsþjálfari Færeyja, stjórnaði spurningakeppni um sundlaugar í löndunum.

Sunnudagurinn byrjaði með sameiginlegri tækniæfingu og endaði á nokkrum ferðum í rennibrautinni og á stökkpallinum. Ferðin lengdist óvænt þegar flug hópsins á sunnudegi var aflýst, en auka dagurinn í Þórshöfn var nýttur til góðra samverustunda.