Sundfélag Akraness styrkir þjálfarateymið – Marino Ingi Adolfsson ráðinn til starfa
Sundfélag Akraness hefur ráðið Marino Inga Adolfsson sem nýjan þjálfara til að efla og styrkja starfsemi félagsins. Marino mun vinna að uppbyggingu og þjálfun yngri hópa í Bjarnalaug í samstarfi við Jill Syrstad, auk þess að þróa æfingar fyrir börn með sérþarfir. Hann mun jafnframt þjálfa hjá sunddeild Skallagríms í Borgarnesi tvisvar sinnum í viku.
Marino kemur með góða reynslu og þekkingu til félagsins. Hann hefur starfað sem þjálfari hjá Firði í Hafnarfirði, er fyrrverandi sundmaður í Íþróttafélaginu ÍFR og hefur lokið námi sem íþróttafræðingur. Þá hefur hann einnig lokið stigum 1 og 2 í þjálfaramenntun World Aquatics (áður FINA).
Við bjóðum Marino innilega velkominn til liðs við Sundfélag Akraness og hlökkum til samstarfsins