Aðalfundur Sundfélags Akraness ályktar um nýja innisundlaug
Aðalfundur Sundfélags Akraness fór fram 24. mars 2025 og fóru fram venjuleg aðalfundarstörf. Formaður félagsins, Valdimar Ingi Brynjarsson flutti skýrslu stjórnar. Þar fór hann m.a. yfir þau sundmót sem sundiðkendur hafa sótt, æfingabúðir sem farið var í og almennt mjög gott gengi iðkenda félagsins.
Ársreikningar félagsins voru lagðir fram og þeir samþykktir. Niðurstaða fyrir rekstrarárið 2024 er félaginu hagstæð og var reksturinn jákvæður um 4 milljónir króna.
Stjórn Sundfélags Akraness var endurkjörin án breytinga. Stjórnina skipa: Valdimar Ingi Brynjarsson formaður, Guðrún Guðbjarnadóttir varaformaður, Þórdís Guðmundsdóttir ritari, Maríanna Pálsdóttir gjaldkeri, ásamt Ágústi Júlíussyni, Emiliu Orlita og Guðmundi Júlíussyni meðstjórnendum.
Björn Sigurðsson formaður Sundsambands Íslands ávarpaði fundinn og kom fram í máli hans að Sundfélag Akraness væri til fyrirmyndar að allri umgjörð og innra starfi. Einnig kom fram í máli Björns að hann, fyrir hönd Sundsambands Íslands, vonaði að stutt yrði þangað til að framkvæmdir hæfust á vegum Akraneskaupstaðar við nýja og stórbætta sundaðstöðu á Akranesi.
Bæjarfulltrúarnir Líf Lárusdóttir og Ragnar B. Sæmundsson tóku m.a. til máls á fundinum og lofuðu það góða starf sem Sundfélag Akraness hefur unnið. Einnig tóku þau undir þær áhyggjur sem félagið hefur af aðstöðumálum á Akranesi. Fram kom í máli þeirra að ný 50 m. innisundlaug væri efst á forgangslista Akraneskaupstaðar yfir íþróttamannvirki og að áætlanir geri ráð fyrir að hafist verði handa við hönnun og framkvæmdir á árinu 2028.
Í lok fundarins var eftirfarandi ályktun samþykkt:
“Til bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar
Aðalfundar Sundfélags Akraness haldinn 24. mars 2025 skorar á bæjarstjórn Akraneskaupstaðar að setja hönnun og framkvæmdir við nýja innisundlaug strax í skýran forgang í áætlunum sveitarfélagsins og að staðið verði við loforð um tímasetningar sem gefin hafa verið. Ný sundlaug hefur verið á dagskrá bæjaryfirvalda á Akranesi í yfir 30 ár og á því tímabili hefur framkvæmdum ítrekað verið frestað þrátt fyrir loforð um annað.
Ný sundlaug varðar ekki bara iðkendur sundfélagsins og afreksstarf þess heldur er einnig um að ræða mikilvæga þjónustu við alla íbúa bæjarfélagsins. Sundíþróttin krefst góðrar æfingaaðstöðu og fyrir bættri aðstöðu höfum við í Sundfélagi Akraness barist árum saman.
Samþykkt á aðalfundi Sundfélags Akraness 24. mars 2025”
https://iasund.is/wp-content/uploads/2025/03/Arsskyrsla-Sundfelag-Akraness-2024.pdf

