Líf og fjör á VIT-HIT leikunum 

Um nýliðna helgi fóru VIT-HIT leikarnir í sundi fram í Jaðarsbakkalaug. Góð þátttaka var á mótinu í ár en alls tóku 322 krakkar þátt frá 10 félögum. Það var því líf og fjör í lauginni um helgina enda stungu sundkrakkarnir sér alls 1519 sinnum til sunds.

Í Grundaskóla gistu um 250 sundmenn, þjálfarar og fararstjórar og í skólanum borðuðu einnig sundmenn og starfsmenn mótsins.

Sundfélag Hafnarfjarðar reyndist stigahæsta félagið að loknu móti og hlaut einnig titilinn „prúðasta liðið“. Þá áttu margir sundmenn glæsilega spretti, bættu persónuleg met eða kepptu í fyrsta sinn á alvöru sundmóti – reynsla sem mun efla þau til framtíðar.

Stigahæstu sundmenn mótsins voru:

Undir 13 ára:

  • Andrej Tepavcevic – Sundfélag Hafnarfjarðar
  • Karen Anna Orlita – Sundfélag Akraness

14–15 ára:

  • Jón Ingvar Eyþórsson – Sunddeild Breiðabliks
  • Guðbjörg Helga Himarsdóttir – Sunddeild Breiðabliks

Til að allt gangi upp á móti sem þessu þurfa margir að leggjast á eitt og kom í ljós að aðstandendur Sundfélags Akraness er öflugur hópur. Foreldrar sundmanna, ásamt velunnurum félagsins stóðu vaktina alla helgina við hin ýmsu störf eins og dómgæslu, riðlastjórn, matarskömtun, veitingasölu, bakstur, uppvask og ýmislegt fleira.

Dómarateymi hvers mótshluta telur 18 manns. Á Vit-Hit leikunum ríkir ávallt góður andi og sunddómurum viðsvegar að af landinu þykir eftirsóknarvert að taka þátt með okkur á Skaganum og fyrir það erum við hjá Sundfélagi Akraness afar þakklát.

Starfsfólk Jaðarsbakkalaugar stóð við bakið á okkur í ár eins og hingað til. Það er ekki síst þeim að þakka að mótshelgin gekk eins vel og raun ber vitni og berum við þeim miklar þakkir fyrir.

Ekki má gleyma sundkrökkunum okkar sem kepptu um helgina og störfuðu við mótið. Við erum afar stolt af þessum krökkum og eru þau félaginu sínu til mikils sóma.

Með kærri þökk fyrir helgina

Stjórn og þjálfara Sundfélags Akraness.