Aðalfundur Sundfélags Akraness fór fram 9. mars sl

Aðalfundur Sundfélags Akraness fór fram 9. mars sl. Hrönn Ríkharðsdóttir stýrði fundinum en fram fóru venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins. Ágúst Júlíusson, formaður Sundfélags Akraness flutti skýrslu stjórnar fyrir árið 2021 sem segja má að hafi verið óvenjulegt, líkt og árið 2020 vegna heimsfaraldursins. Þrátt fyrir það var árangur iðkenda góður og fagnar félagið auknum fjölda iðkenda á árinu 2021. Í skýrslunni var einnig farið yfir viðurkenningar og verðlaun sem iðkendur hafa hlotið fyrir afrek og ástundun á liðnu ári.

Daníel Sigurðsson, gjaldkeri lagði fram ársreikning félagsins sem samþykktur var einróma af fundargestum. Rekstrarhalli á milli ára var um 600 þúsund sem skýra má með því að í lok árs 2020 þurfti að fresta allnokkrum námskeiðum vegna covid19 sem búið var að greiða fyrir en launakostnaður fyrir þau var greiddur á árinu 2021. Eigið fé félagsins er hinsvegar rúmlega 9 milljónir sem staðfestir trausta stöðu félagsins.

Í stjórn Sundfélagsins voru eftirtalin endurkjörin: Ágúst Júlíusson formaður, Guðrún Guðbjarnadóttir varaformaður, Þórdís Guðmundsdóttir ritari, Daníel Sigurðsson gjaldkeri ásamt Ruth Jörgensdóttur Rautenberg, Nínu Björk Gísladóttur og Emiliu Orlita meðstjórnendum.

Björn Sigurðsson formaður Sundsambands Íslands ávarpaði fundinn og hrósaði Sundfélagi Akraness fyrir gott starf og gott utanumhald á krefjandi tímum. Hann var afar ánægðu með að sjá að framkvæmdir á Jaðarsbakkasvæðinu væru hafnar og sagði að Sundsamband Íslands myndi standa þétt við bakið á Sundfélagi Akraness þegar kemur að bættri æfingaaðstöðu.

Eyleifur Jóhannesson landsliðsþjálfari í sundi og Skagamaður ávarpað einnig fundinn. Hann tók undir með Birni og var afar ánægður með gott starf og góðan rekstur félagsins. Einnig kom fram í máli Eyleifs að gott samstarf væri við þjálfara Sundfélags Akranes þegar kemur  að verkefnum landsliðsins en félagið á þrír iðkendur sem náðu landsliðslágmörkum á árinu 2021.

Að fundi loknum var fundargestum boðið upp á kökuhlaðborð sem hefð er fyrir á slíkum fundum hjá Sundfélagi Akraness.